Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 245/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 245/2021

Fimmtudaginn 30. september 2021

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kærum, dags. 16. maí 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Kópavogsbæjar, dags. 10. janúar 2020, 28. október 2020 og 10. febrúar 2021, vegna umsókna hans um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ með umsóknum, dags. 27. nóvember og 27. desember 2019. Umsóknum kæranda var synjað með vísan til 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð og var sú ákvörðun kynnt kæranda með bréfi, dags. 10. janúar 2020. Kærandi sótti einnig um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ fyrir október 2020. Umsókn kæranda var tekin fyrir á teymisfundi þann 28. október 2020 þar sem tekin var ákvörðun um að skerða fjárhagsaðstoð um helming með vísan til 16. og 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Þá sótti kærandi um fjárhagsaðstoð fyrir desember 2020 og með ákvörðun teymisfundar, dags. 6. janúar 2021, var honum tilkynnt að fjárhagsaðstoð fyrir þann mánuð væri skert um helming með vísan til 16. gr. reglnanna. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs Kópavogsbæjar sem staðfesti synjunina með ákvörðun, dags. 10. febrúar 2021.

Kærandi lagði fram þrjár kærur hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, allar dagsettar 16. maí 2021. Með bréfi, dags. 1. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Kópavogsbæ vegna kæranna ásamt öllum gögnum um kæruefnið. Greinargerð Kópavogsbæjar barst 14. júní 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. júní 2021. Athugasemdir kæranda bárust 31. ágúst 2021 og voru þær sendar Kópavogsbæ til kynningar 2. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. september 2021, var óskað eftir frekari gögnum frá Kópavogsbæ. Umbeðin gögn bárust 21. september 2021 og voru send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. september 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að kæra númer eitt snúi að ólögmætri ákvörðun um fjögurra vikna málskotsfrest til velferðarráðs Kópavogs í 13. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð og vegna vanrækslu á kynningu málskotsréttar. Þrátt fyrir að bæjarstjórn Kópavogsbæjar nýti sér heimild til innansveitar áfrýjunar í 3. mgr. 6. gr. laga nr. [40/1991] um félagsþjónustu þá sé henni óheimilt að skerða málskotsrétt kæranda sem sé tryggður í 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála en þar segi að kæra skuli berast skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um ákvörðunina. Löggjafinn meti þrjá mánuði hæfilegan frest fyrir fólk í viðkvæmri stöðu með lítil úrræði vegna þessara mála. Vegna sömu mála skerði Kópavogsbær málskotsrétt kæranda um meira en 2/3 með 13. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð en þar komi fram að það skuli gert eigi síðar en fjórum vikum eftir að viðkomandi hafi borist vitneskja um ákvörðun. Þessi skerðing á málskotsrétti kæranda eigi sér enga stoð í lögum og brjóti í bága við 5. gr. laga nr. 85/2015 og þá kröfu að ákvarðanir stjórnvalda megi ekki að efni til vera andstæðar þeim almennu réttarreglum sem gildi um það málefni er ákvörðun varði og enn fremur að stjórnvöld geti almennt ekki íþyngt borgurunum með ákvörðunum sínum nema hafa til þess viðhlítandi heimild í lögum. Hér eigi einnig við ummæli úr skýrslu nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu sem hafi verið gefin út af forsætisráðuneytinu árið 1999 (hér eftir skýrsla um starfsskilyrði stjórnvalda) en þar segi að því tilfinnanlegri sem sú skerðing sé sem leiði af ákvörðun stjórnvalds, þeim mun strangari kröfur verði að gera til sönnunar á nauðsyn skerðingarinnar. Bíði það bæjarins að bæta þar úr.

Í synjunar- og skerðingarákvörðunum af hendi velferðarsviðs Kópavogs frá 10. janúar 2020 og 6. janúar 2021 sé þessi regla um fjögurra vikna málskotsrétt án tilvísunar en í ákvörðun frá 28. október 2020 sé engin kynning á málskotsrétti sem lögboðið sé, sbr. 61. gr. laga nr. 40/1991 og 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Til samanburðar hafi félagsmálanefnd (hér velferðarráð Kópavogs) tveggja daga lengri frest til að komast að niðurstöðu en málsaðili til málskots, sjá 3. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991, en þar komi fram að niðurstaða skuli liggja fyrir innan 30 daga.

Brot á jafnræðisreglunni sé önnur afleiðing þessarar skerðingar á málskotsrétti samkvæmt 13. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Málsaðilar búsettir í Kópavogi hafi vegna þessa ekki þriðjung af því ráðrúmi til málskots sem öðrum borgurum landsins sé tryggður í 5. gr. laga nr. 85/2015. Enda sé skýrt kveðið á í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda að á því sé byggt að þegar sveitarfélögum sé falin framkvæmd laga að sömu reglur gildi um land allt á hluteigandi sviði.

Það sé ekki lögmætt sjónarmið bæjarstjórnar Kópavogs að styrkja varnir sínar með réttarskerðingu, sem felist í 13. gr reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð, gegn fólki í veikri stöðu sem vilji leita réttar síns. Óheimilt sé að styrkja með þessum hætti varnir lægra setts stjórnvalds gegn eðlilegu eftirliti æðra stjórnvalds og dómstóla þegar íbúar sveitarfélags reyni af veikum mætti að leita réttar síns. Það sé ekki í samræmi við þá grundvallarskyldu stjórnvalda að framkvæma lög í samræmi við þau markmið sem löggjafinn hyggist ná fram með setningu þeirra, sem sé hér að tryggja réttaröryggi borgaranna með hæfilegum málskotsrétti.

Í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda sé enn fremur hnykkt á þessu í sambandi við lögbundna fresti: „Í 70. gr. stjórnskrárinnar sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 er mælt svo fyrir að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur… Að mati nefndarinnar er æskilegt að skilyrða ekki rétt manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómstólum með þessum hætti, nema mjög veigamiklar ástæður mæli með því. Í slíkum tilvikum mælir nefndin eindregið með því að þess verði gætt að málsóknarfrestir séu ekki stuttir. Mjög stuttir málsóknarfrestir geta vafalítið farið í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar.“

Ef kærandi meti þetta rétt hafi hann verið blekktur um rétt sinn til málskots sem hafi raskað mjög hans margþætta málatilbúnaði gegn velferðarsviði Kópavogs. Vegna þessa ætti kærandi að njóta sérstaks tillits vegna kærufresta í yfirstandandi málum sínum gegn Kópavogsbæ, ef slíkt kæmi til.

Í kæru númer tvö fer kærandi fram á að dreginn sé til baka skerðingarákvörðun teymis frá 6. janúar 2021 og ákvörðun velferðarráðs Kópavogs, dags. 10. febrúar 2021.

Í 6. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð komi fram að umsækjandi skuli framvísa staðfestingum á umsóknum um störf. Í 16. gr. komi fram að ef einstaklingur hafi ekki sinnt virkri atvinnuleit með sannanlegum hætti skuli fjárhagsaðstoð skerðast um helming þann sama mánuð og mánuðinn á eftir. Kærandi hafni því að af orðunum „framvísa staðfestingum“ og „með sannanlegum hætti“ sé leidd hin óskráða útfærsla að umsækjandi um fjárhagsaðstoð skuli biðja atvinnurekendur um staðfestingu með undirskrift eða með stimpli. Yfirlit um aðila sem sótt sé um hjá sé fullnægjandi fyrir velferðarsvið og samkvæmt 6. og 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð.

Í mótbárum kæranda gegn þessari íþyngjandi athafnaskyldu á eyðublaðinu „Staðfesting á virkri atvinnuleit vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð“ komi fram að þessi krafa framkalli tortryggni og fordóma gegn umsækjanda, skaði samningsaðstöðu að gefa upp hversu illa staddur umsækjandi sé, brjóti gegn rétti til einkalífs og allt auka umstang í kringum umsókn setji hana í forgrisjun við flokkun umsókna og takmarki möguleika umsækjanda í samkeppni um störf. Þessum mótbárum hafi í engu verið svarað í úrskurðarbréfi teymis frá 6. janúar 2021 né heldur hafi velferðarráð gætt skyldubundinna sjónarmiða í úrskurði sínum, dags. 10. febrúar 2021, með því að sinna í engu framkomnum málefnalegum sjónarmiðum málsaðila.

Í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda sé bent á almenn sjónarmið sem yfirleitt teljist lögmæt og gæti mjög í stjórnsýslurétti. Meðal þessara sjónarmiða séu réttmætar væntingar málsaðila, grandaleysi hans og réttaröryggi svo og kurteisi og velvilji í garð málsaðila. Skyldubundin sjónarmið séu nefnd þau sjónarmið sem stjórnvöldum sé skylt að byggja matskenndar ákvarðanir sínar á. Auk réttaröryggissjónarmiða og sjónarmiða um vernd mannréttinda beri stjórnvöldum loks að líta til þeirra málefnalegu sjónarmiða sem færð séu fram af málsaðila.

Lítilsvirðing, bæði teymis og velferðarráðs Kópavogs gagnvart skyldubundnum sjónarmiðum eins og skýrt framsettum andmælum kæranda, í úrskurðum sínum, dags. 6. janúar og 10. febrúar 2021, sé vel til þess fallin að draga kjark úr fákunnandi málsaðila og verði honum og úrlausn málsins til einskis gagns. Þessi auka áfrýjun sé hvorki til óháðs né óhlutdrægs aðila. Hún sé til þess fallin að torvelda málið fyrir málsaðila sem hafi lítil úrræði og þurfi að lifa frá degi til dags gegn stjórnvöldum bæjarins með næg aðföng og bolmagn af almannafé og geti leyft sér að hugsa í árum. Þessi innanhéraðs áfrýjun lengi málavafstur, auki flækjustig og tilkostnað áfrýjanda sem megi við litlu. Kærandi hafi ekki upplifað kurteisi og velvilja í þessum afgreiðslum máls síns. Kærandi haldi að teymi og velferðarráð hafi ekki þurft neitt sérlega góðan vilja til að skilja mótrök hans. Söðli því þar á ofan að nota tækifærið til að stórþrengja málskotsfrest og skerða þannig réttaröryggi íbúa.

Í skerðingarúrskurði í bréfi frá 6. janúar 2021 og síðan endurtekið í ákvörðun 10. febrúar 2021 komi fram að kærandi hafi ekki framvísað gildum staðfestingum á virkri atvinnuleit með vísun í 16. gr. Staðfestingar á umsóknum um störf skyldu vera með sannanlegum hætti, sbr. 16. gr., og að staðfesting atvinnuveitanda á umsóttum störfum væri ekki fyrirliggjandi. Ekkert í 16. gr. segi fyrir um hina íþyngjandi kvöð sem felist í sérstakri útfærslu og munnlegum fyrirmælum starfsmanna velferðarsviðs. Þessi útfærsla starfsmanna brjóti gegn meðalhófsreglunni og leggi óeðlilega sönnunarbyrði á umsækjanda miðað við tilefni. Velferðarsvið geti hægleg eytt sinni sérstöku tortryggni gagnvart umsækjendum með minna íþyngjandi og vægara móti, til dæmis með skjáskoti af sendri umsókn eða að prófa með slembiúrtaki.

Síðan hafi velferðarsvið Kópavogsbæjar breytt sönnunarkröfum við afgreiðslu mála kæranda þannig að skjáskot af sendri umsókn hafi nægt til að létta þungum áhyggjum af velferðarsviði sem viðurkenni á þann hátt í verki að hafa farið offari hvað varði meðalhóf. Deila megi um hvort eyðing þessarar sérstöku tortryggni sé „lögmætt markmið“ eða hvort ákefðin byggi á málefnalegum sjónarmiðum.

Hér við bætist að velferðarsvið hafi rannsóknarskyldu um þessi atriði og aðila. Í 7. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð komi fram að starfsmaður skuli, ef þörf krefji, afla frekari upplýsinga um tekjur, eignir og réttindi umsækjenda, svo sem hjá skattyfirvöldum og atvinnurekendum. Hér komi skýrt fram að starfsmenn hafi rannsóknarskyldu hvað varði þessi atriði. Stjórnvaldi sé ekki heimilt að koma rannsóknarskyldu sinni yfir á óskylduga, að láta umsækjanda sjálfan brjóta á sinni persónuvernd, þó af því leiði rekstrarsparnaður. Þessar óskráðu og íþyngjandi reglur fari einnig í bága við kröfur lögmætisreglunnar um viðhlítandi réttarheimildir.

Væntingar velferðarsviðs og ákaft eftirlit sé í engu samræmi við tilefnið. Eftirlitskröfur sem þessar hljóti að vera ætlaðar gegn sérlega tortryggilegum þjóðfélagshópi og mikið í húfi.

Tilkynningaskylda til atvinnurekanda að fyrra bragði sé þungbær vegna rótgróinna fordóma og líkleg til að raska viðkvæmu umsóknarferli og geti skaðað samningsstöðu um kaup og kjör, ef til þess kæmi. Hér kemur og til að sönnunarkröfur bæjaryfirvalda séu niðurlægjandi á fráhrindandi hátt og þannig líklegar til að þjóna sparnaðarákefð bæjaryfirvalda í velferðarmálum. Vel sé þekkt notkun ráðningaraðila á útilokunaraðferð vegna fjölda umsókna. Meðal hinna fyrstu í slíka grisjun séu þeir sem fari fram á aukafyrirhöfn og sérkröfur. Vægari úrræði, svo sem upplýsingaöflun um réttindi umsækjenda hjá atvinnurekendum samkvæmt rannsóknarskyldu velferðarsviðs eftir umsóknarferlið, sé mun viðurhlutaminna fyrir umsækjendur.

Það sé skerðing á einstaklingsfrelsi og persónuvernd kæranda að vera knúinn til athafna sem skaði hagsmuni hans og þröngva honum til að veifa merkimiða um efnahag sinn og stöðu framan í marga þriðju aðila, á grunni munnlegra fyrirmæla sem kærandi geti ekki vitað betur en að séu heimildarlaus.

Kærandi kæri einnig óeðlilegt hlutfall refsingar og brots sem komi fram í 16. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð en þar segi að ef einstaklingur hafi ekki sinnt virkri atvinnuleit með sannanlegum hætti skuli fjárhagsaðstoð skerðast um helming þann sama mánuð og mánuðinn þar á eftir. Burtséð frá lögmæti þeirra sönnunarkrafna sem velferðarsvið Kópavogs geri þá telji kærandi að orðin „og mánuðinn þar á eftir“ beri vott um ákafa refsigleði, sparnaðarviðleitni og takmarkaða sýn á kjör þeirra sem skuli refsað. Hér eigi við ummæli úr skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda um að þá reyni á meðalhófsregluna, þ.e. eðlilegt samræmi verði að vera á milli eðli og grófleika brots annars vegar og þyngdar þeirra viðurlaga sem ákvörðuð séu hins vegar. Hér sé ekki eðlilegt samræmi brots og refsingar og varla verði séð að tilefni eða hagsmunir í húfi kalli á svo þung viðurlög.

Kæra númer þrjú snúi að rangri beitingu 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Í ákvörðun velferðarsviðs Kópavogs, dags 10. janúar 2020, komi fram að umsókn kæranda frá 27. nóvember 2019 væri synjað með vísan í 18. gr. um eignir kæranda. Peningalegar eignir væru yfir framfærsluviðmiðum og því komi ekki til fjárhagsaðstoðar. Í sömu ákvörðun komi fram að umsókn frá 27. desember 2019 væri einnig synjað á sömu forsendum. Í ákvörðun teymis fyrir hönd velferðarsviðs Kópavogs frá 28. október 2020 vegna umsóknar fyrir október 2020 komi fram að þann 1. október 2020 hafi kærandi átt peningaeignir í banka að upphæð 199.357 kr. sem skerði fjárhagsaðstoð að hluta fyrir október, að upphæð 45.912 kr., með vísan til framangreindrar 18. gr.

Í 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð komi fram að sé umsókn um fjárhagsaðstoð synjað fái umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar séu rökstuddar ásamt tilvitnunum í viðeigandi greinar fjárhagsaðstoðarreglna, sbr. 3. mgr. 58. gr. laga nr. 40/1991.

Í 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð komi fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili peningaeignir eða aðrar eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi búi í og eina fjölskyldubifreið eða bifhjól, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli umsækjanda vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur viðkomandi séu undir viðmiðunarmörkum. Heimilt sé að veita fjárhagsaðstoð í formi láns ef umframeignir séu settar í sölu og framvísað staðfestingu þess efnis. Ef umsækjandi hafi selt eignir eða eignarhluta í fyrirtæki eða hlutabréfaeign á yfirstandandi ári beri að skila inn afriti af kaupsamningi og þegar við eigi ársreikningi. Lán komi til endurgreiðslu við sölu umframeigna.

Í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda um ófullnægjandi reglusetningu sveitarfélaga um rétt til fjárhagsaðstoðar segi að hafi slíkar reglur ekki verið settar sé réttaröryggi íbúa sveitarfélagsins á sviði félagsþjónustu fyrir borð borin og vafi hljóti að leika á hvort uppfylltur hafi verið áskilnaður 76. gr. stjórnarskrárinnar um að réttur til aðstoðar vegna örbirgðar og sambærilegra atvika hafi verið tryggður í lögum. Svo að um réttaröryggi sé að ræða í skiptum borgaranna og stjórnvalda verði borgararnir að eiga möguleika á að kynna sér gildandi réttarreglur og sjá fyrir hvaða afleiðingar ákveðnar athafnir þeirra muni hafa að lögum. Af þessum sökum verði lög og reglur að vera birtar og almenningi aðgengilegar.

Bæjaryfirvöld Kópavogs hafi ekki gætt þessara sjónarmiða við setningu og beitingu 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð og gæti þess freklega í afgreiðslu máls kæranda. Það sé ekki að bæjaryfirvöld hafi ekki birt reglurnar heldur að þær séu gloppóttar. Teymi og velferðarráð Kópavogs byggi ákvörðun sína á uppspunnu efni í 18. gr. sem ef til vill hefði átt að standa skrifað í gloppunni eða þeim finnist að ætti að standa þar. Hér, eignaviðmið eignalausra sem þó hafi handbært óverulegt lausafé. Beiting stjórnvaldsins á 18. gr. reglnanna sé reist á alvarlegum mislestri eða tilraun til að villa um fyrir kæranda.

Skerðing fjárhagsaðstoðar til kæranda með vísan til 18. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð sé út í bláinn. 18. gr. fjalli eingöngu um skýrt afmarkaðan eignahóp sem kærandi tilheyri alls ekki. 18. gr. eigi engan veginn við um umsókn kæranda. Í 18. gr. sé ekki orð um þann eignahóp sem tiltekinn sé í d. lið 28. gr. reglnanna og hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana. Engar skráðar reglur eða viðmið um skerðingar fjárhagsaðstoðar vegna óverulegrar peningaeignar séu til staðar, þær séu eingöngu í 18. gr. Hér sé enginn fyrirsjáanleiki, enda hafi kæranda fundist hann hafi gengið í gildru og enginn möguleiki á að fara yfir útreikninga bæjarins. Hér komi einnig til villandi notkun á hugtakinu „framfærsluviðmið“ í ákvörðuninni. Þessa hugtaks sjáist enginn staður í 18. gr. né annars staðar í reglum Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Ákvæði 3. mgr. 15. gr. reglnanna sem segi að frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragist skattskyldar tekjur, sbr. 17. gr. og peningaeignir samkvæmt 18. gr., breyti engu í þessu tilliti.

Í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda komi fram að ófullkomin birting reglna sem sveitarfélag setji skerði ekki einvörðungu réttaröryggi íbúa heldur geri reglustjórn meirihluta sveitarstjórnar á hverjum tíma ógegnsæja. Sveitarstjórninni beri skylda til, bæði að setja reglur og birta þær.

Vegna fagurra fyrirmæla um forvarnir gegn og „að koma í veg fyrir“ fátækt í lögum nr. 40/1991 og reglum Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð geti kærandi ómögulega séð fyrir að bæjaryfirvöld færu fram á algjört bjargþrot svo að ekki komi til skerðingar að fullu eða að hluta á heilum 158.970 kr. í tilviki kæranda. Þrátt fyrir að af gögnum málsins séu augljós bjargþrot kæranda vegna langtímaatvinnuleysis og síðan réttleysis leggi velferðarsvið alla áherslu á sínar formkröfur og hafi því varla sinnt rannsóknarskyldu sinni að því er séð verði.

Því skyldi umsækjendum ekki vera heimilt að hafa handbærar 100 til 200 þúsund krónur fyrir óvænt útgjöld eða neyðartilvik? Ráðgjöf til fátækra upp úr hruni hafi lagt ríka áherslu á þetta grunnatriði lágmarks efnahagslegs öryggis og slík viðmið séu gjarnan notuð í efnahagslegum mælingum á lýðfræði fátæktar.

Þess megi geta að peningaeign kæranda á bankareikningi við fyrstu umsókn hafi staðið til greiðslu gjaldfallinnar leigu en kæranda hafi verið tjáð af velferðarsviði að það skipti ekki máli. Við seinni umsókn, þegar virkilega hafi verið farið að sverfa að og heiðursskuldbindingar við baklandið farnar að hlaðast upp, hafi Skatturinn lagt inn á reikning kæranda, honum alveg að óvörum og ótilkynnt, rétt fyrir útprentun áskilins stöðuyfirlits frá bankanum, endurgreiðslu ofgreidds skatts. Bærinn hafi gripið það tækifæri til að skerða fjárhagsaðstoð kæranda. Umrædd endurgreiðsla hafi verið að 5/6 hlutum endurgreiðsla á ofgreiddu útsvari, 154.070 kr. Kærandi voni að féð hafi komið bænum í góðar þarfir því að allan tímann hafi kæranda sárvantað peningana.

Kærandi áskilji sér allan rétt vegna ætlaðra réttarbrota velferðarsviðs Kópavogs og biðji um álit nefndarinnar á þeim þætti málsins, ef svo falli. Málavafstur þetta, að freista þess að rétta hlut sinn, hafi valdið kæranda mikilli fyrirhöfn og langvarandi álagi.

Kærandi hafi búið við þungar fjárhagsáhyggjur við versnandi fjárhag og vaxandi skuldbindingar og verri heilsu þess vegna. Bæjaryfirvöld hafi hrundið kæranda frá lögboðinni og eðlilegri aðstoð í sínum lengi vaxandi þrengingum og eftir langvarandi atvinnuleysi.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Kópavogsbæjar er því hafnað að kærufrestur sé liðinn. Engar gildar dagsetningar né rök fylgi og segi það sína sögu.

Kópavogsbær segi: „Ekki eru gerðar strangari kröfur um staðfestingu á atvinnuleit aðrar en að viðkomandi sendi skjáskot af rafrænni umsókn.“ Þetta séu undanbrögð því að málið snúist ekki um framgang bæjarins eftir að hann hafi breytt kröfum sínum vegna harðra og langvarandi mótmæla kæranda gegn fyrri ólöglegu kröfum bæjarins um staðfestingu á atvinnuleit. Gögn málsins upplýsi þrjósku bæjarins. Kópavogsbær segi: „Þessi eyðublöð eru ekki lengur í notkun.“ Málið snúist [ekki] um notkun eyðublaðanna þó gott sé að bærinn hafi loksins látið af réttarbrotum sínum. Að hætta að brjóta lög fríi aðila ekki frá ábyrgð vegna áður framinna brota.

Kópavogsbær segi: „Þegar kærandi gerði athugasemd við framangreinda framkvæmd var honum leiðbeint um að skjáskot af umsókn væri næg.“ Þetta sé rangt sem sjáist af áfrýjun kæranda til velferðarráðs Kópavogsbæjar frá 6. janúar 2021: „Velferðarsvið getur hæglega eytt sinni sérstöku tortryggni gagnvart umsækjendum með minna íþyngjandi og vægara móti, til dæmis með skjáskoti af sendri umsókn…“ Þessari tillögu hafi velferðarráð Kópavogsbæjar hafnað í ákvörðun sinni sem hafi verið afhent kæranda 16. febrúar 2021. Um svipað leyti, í sambandi við atvinnuátak, hafi kæranda verið kynnt stefnubreyting bæjarins varðandi þessar staðfestingar en það hafi verið orðað þannig að skilja mætti að notkun skjáskota væri leyfileg í þessu átaki. Kærandi hafi skynjað undanhald bæjarins og ákveðið með sjálfum sér að nota skjáskot við allar umsóknir og það hafi verið rétt ályktað. Þessar upplýsingar um leyfð skjáskot hafi borist munnlega og kærandi hafi strax sótt um störf samkvæmt þeim.

Kópavogsbær segi: „Kærandi sagðist þá ekki hafa aðgang að tölvu.“ Þetta sé rangt. Tölva kæranda hafi hrunið eftir að hann hafi nauðugur hlýtt kröfum bæjarins um tölvunotkun. Kærandi hafi aldrei sagt við starfsfólk velferðarsviðs Kópavogsbæjar að hann hefði ekki aðgang að tölvu eða að hann ætti ekki tölvu. Hið rétta sé að kærandi vilji aðeins nota tölvuna til að leita upplýsinga og nú síðustu mánuði til að lesa fréttir. Kærandi hafi ekki viljað nota tölvuna sína á annan hátt en svo vegna þess hve berskjaldaðar þær séu gegn tölvuglæpum opinberra aðila og einkaaðila, sem alkunna sé, og þeirrar frelsisskerðingar sem felist í því að vera bundinn af því að vakta tölvupósthólf til að tryggja rétt sinn. Heldur vilji kærandi nota rétt sinn til skriflegra (eða prentaðra) samskipta við yfirvöld sem helgist af langri hefð og hafi ekki verið numinn úr lögum. Helsti gallinn við það sé mjög ótrygg póstdreifing (almennur póstur) sem kærandi hafi ítrekað skaðast af og nú nýlega sem úrskurðarnefndinni megi vera kunnugt.

Opinberir aðilar hafi æ meir gert tölvunotkun að algeru skilyrði fyrir lágmarksréttindum, svo sem framfærslurétti eða sameiginlegum gæðum eins og atvinnuumsóknum hjá hinu opinbera (Kópavogsbær og B hafi ítrekað meinað kæranda að sækja skriflega um atvinnu). Réttur almennings sé þannig skertur án lagastoðar.

Tölvur séu dýr tæki og krefjist kunnáttu og þjálfunar ellegar dýrra þjónustukaupa. Kærandi hafi verið svo heppinn að geta útvegað aðstoð við tölvuumsóknir hjá einstaklingi sem sé þjálfaður í tölvunotkun um árabil. Honum hafi alls ekki gengið vel að leysa verkefnið, það hafi tekið langan tíma og allskonar prófanir og tilfæringar. Kærandi skilji ekki hvernig í ósköpunum hann hafi átt að leysa þessa þraut.

Kópavogsbær setji samkvæmt framansögðu efnahagslegar og tæknilegar hindranir fyrir fátækt fólk í veikri stöðu sem reyni að fá sinn lágmarksrétt.

Þegar gömlu tölvu kæranda hafi verið þrælað gegnum þessi nýju og flóknu verkefni hafi hún hrunið/frosið. Þá hafi kærandi staðið uppi án möguleika til að tryggja sinn rétt. Kærandi hafi fundist að kröfur bæjarins um þessa tölvuvinnslu hafi valdið hruni tölvunnar. Kærandi hafi krafið bæinn um að borga nýja tölvu og eftir mikla eftirgangsmuni og prútt hafi kærandi fengið sínu fram eftir að hann hafi hafnað verri tilboðum, svo sem að fá allslaus lán hjá bænum fyrir tölvukaupum. Meðan á þessu hafi staðið hafi kærandi leitað að manni sem gæti ef til vill komið tölvu kæranda í gang. Eftir mikla vinnu hafi honum tekist að lífga tölvuna við. Kærandi hafi því afþakkað tölvustyrkinn, þrátt fyrir hvatningu ráðgjafans til hans að þiggja hann samt, því það hafi vaknað hjá honum grunur og hann hafi andúð á sóun almannafjár og óþarfa kolefnisspori. Hvað varði úrræði, svo sem bókasafnstölvur eða aðstoð hjá félagsþjónustunni, þá séu þau kæranda ótæk vegna öryggisleysis bókasafnstölva og traust kæranda á félagsþjónustunni sé í reynslumótuðu lágmarki.

Kærandi geri athugasemdir við ummæli starfsmanns Kópavogsbæjar, dags. 6. janúar 2021. Starfsmaðurinn segi: „Umsækjandi telur rangt að skilyrða fjárhagsaðstoð, þar sem ekkert kveði á um skilyrðingar fjárhagsaðstoðar í íslenskum lögum eins og hann orðar það.“ Fyrir kæranda sé þetta fráleit skoðun og vitleysa um réttarástand á Íslandi og hann frábiðji sér að vera orðaður við slíka heimsku. Starfsmaðurinn segi: „…ofangreint sé vandamál VK ef það þarf nánari sönnunarbyrði þess efnis, en ekki hans.“ Kærandi skilji ekki hvað starfsmaðurinn sé að meina með þessu. Starfsmaðurinn segi: „Hann hefur haft orð á að sveitafélagið sé með ólöglega starfsemi.“ Kærandi taki fram að þess vegna kæri hann. Um bókasafnstölvur hafi starfsmaðurinn sagt: „Þá nefndi hann að það væri hlerunarbúnaður í þeim…“ Að mati kæranda sé þetta barnalega orðað og velti hann því upp hvort þetta sé ekki almenn vitneskja um tölvur.

Ef kærandi hefði vitað að skrifa ætti viðtalsskýrslu einhvern tímann síðar hefði hann ef til vill einfaldað orðræðuna og notað minna af erfiðum orðum. Kærandi velti því upp hvort löglegt sé að taka viðtal með þeim ásetningi að rifja það upp síðar í skriflegri skýrslu, meðal annars að skrá ætlaðar skoðanir viðmælenda, sem yrði þá opinbert gagn, án þess að láta viðmælanda vita af þeirri fyrirætlun. Kærandi hafi ekki séð neina minnispunkta skráða í viðtölum. Slíkt hirðuleysi í tilbúningi opinberra gagna hljóti að jaðra við persónulega meingerð gegn þeim sem um sé fjallað. Upplýsandi væri að sjá alla endurvinnslu Kópavogsbæjar á viðtölum við kæranda sem tengist þessu máli.

Kærandi veki athygli úrskurðarnefndar á að Kópavogsbær hundsi spurningu nefndarinnar um hvenær og með hvaða hætti kæranda hafi verið birt ákvörðun velferðarráðs, dags. 10. febrúar 2021. Ákvörðun velferðarráðs hafi verið afhent kæranda 16. febrúar 2021 er hann hafi gengið á eftir henni á skrifstofu velferðarráðs og hafi þá að öllum líkindum ekki verið póstlögð.

Þessi útúrdúr um tölvunotkun vegna tilraunar bæjarins til að drepa málinu á dreif snerti lítið kæruefnin sem standi öll óhögguð en vegna rangfærslna verði kærandi að bregðast við.

Kærandi áskilji sér auðviðtað rétt til leiðréttingar og bóta vegna réttarbrota og þvermóðsku velferðarsviðs Kópavogsbæjar sem hafi valdið honum margs konar skaða. Ef svo félli og ef það sé á verksviði úrskurðarnefndar, óski kærandi eftir að nefndin meti þann þátt málsins eða gefi leiðbeiningar þar um.

III.  Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi sent þrjár kærur til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna afgreiðslu á umsókn hans um fjárhagsaðstoð, allar dagsettar 16. maí 2021. Í fyrstu kæru sé kærð afgreiðsla á umsókn um fjárhagsaðstoð sem birt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 10. janúar 2020. Í bréfinu sé vísað til þess að kærufrestur sé þrír mánuðir. Sá frestur sé liðinn og beri því að vísa kærunni frá. Í annarri kæru sé kærð ákvörðun velferðarráðs frá 10. febrúar 2021 sem kæranda hafi verið tilkynnt um með bréfi, dagsettu sama dag. Í þriðju kæru sé kærð ákvörðun velferðarráðs frá 10. febrúar 2021 sem kæranda hafi verið tilkynnt um með bréfi, dagsettu sama dag. 

Ákvörðun velferðarráð frá 10. febrúar 2021, sem kærð sé tvívegis, sé svohljóðandi:

„Umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir desember 2020 er skert um helming með vísan í 16. gr. í reglum Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð þar sem umsækjandi hefur ekki framvísað gildum staðfestingum á virkri atvinnuleit í desember 2020.“ 

„Rökstuðningur: Þegar umsækjandi um fjárhagsaðstoð er atvinnulaus skal hann framvísa staðfestingum á umsóknum um störf, að lágmarki skal sótt um eitt starf á viku sbr. 6. gr. Þá skulu staðfestingar á umsóknum um störf vera með sannanlegum hætti sbr. 16. gr. en umsækjandi hefur framvísað yfirliti yfir störf sem hann hefur sótt um en staðfesting vinnuveitanda á umsóttum störfum er ekki fyrirliggjandi. Umsækjanda stendur til boða að fá aðstoð hjá félagsráðgjafa að sækja um störf rafrænt.“

Kópavogsbæ sé heimilt og í raun skylt samkvæmt ákvæði 1. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 að setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Það hafi Kópavogsbær gert. Í þeim reglum sé gerð krafa um að umsækjendur framvísi staðfestingu á þörf sinni og rétt á fjárhagsaðstoð. Meðal þess sem gerð sé krafa um er að séu umsækjendur ekki óvinnufærir samkvæmt læknisvottorði, sýni þeir fram á að vera í virkri atvinnuleit. Ekki séu gerðar strangari kröfur um staðfestingu á atvinnuleit aðrar en þær að viðkomandi sendi skjáskot af rafrænni umsókn.

Kærandi hafi fengið eyðublað frá afgreiðslu velferðarsviðs þar sem gert sé ráð fyrir öflun staðfestingar á atvinnuumsókn með undirritun atvinnurekanda. Þessi eyðublöð séu ekki í notkun lengur. Þegar kærandi hafi gert athugasemd við framangreinda framkvæmd hafi honum verið leiðbeint með að skjáskot af umsókn myndi nægja. Kærandi hafi þá sagst ekki hafa aðgang að tölvu. Brugðist hafi verið við því með því að bjóða umsækjanda styrk til að festa kaup á tölvu, einnig hafi honum verið boðin aðstoð og aðgangur að tölvum, annaðhvort á bókasafni eða hjá félagsþjónustunni. Velferðarsvið Kópavogs hafi því gert sitt til þess að aðstoða kæranda við að uppfylla skilyrði þess að fá fulla fjárhagsaðstoð. Þar sem kærandi hafi ekki framvísað staðfestingu á atvinnuleit hafi fjárhagsaðstoð hans verið skert á grundvelli 16. gr. reglna bæjarins.

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Kópavogsbæjar, dags. 10. janúar 2020, 28. október 2020, og 10. febrúar 2021, vegna umsókna kæranda um fjárhagsaðstoð. Verður fyrst vikið að ákvörðun frá 10. janúar 2020 er varðar synjun á umsóknum kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir nóvember og desember 2019. Í bréfinu var kæranda bent á að heimilt væri að skjóta ákvörðuninni til velferðarráðs Kópavogs eigi síðar en innan fjögurra vikna. Ákvörðun velferðarráðsins mætti síðan skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða. Kærandi hefur gert athugasemd við þá framkvæmd og telur að hún skerði lögbundinn málskotsrétt hans.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Um fjárhagsaðstoð er fjallað í 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í 3. mgr. 6. gr. er þó tekið fram að sveitarstjórn geti ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins að áður en hægt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr., skuli máli fyrst skotið til félagsmálanefndar eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélaga. Nýti sveitarstjórn þessa heimild skal málsaðila leiðbeint bæði um málskot og kæruleið þegar ákvörðun í máli er kynnt honum og skal niðurstaða liggja fyrir innan 30 daga.

Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 37/2018 um breytingu á lögum nr. 40/1991 er vísað til þess að breytingin komi til vegna orðalags í þágildandi lögum um að endanleg afstaða félagsmálanefndar þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun verði kærð. Það hafi valdið vafa um heimildir starfsmanna og hvaða réttaráhrif verði bundin við afgreiðslu starfsmanna á umsóknum um þjónustu. Þá sé einnig mismunandi hvernig framkvæmdin sé á milli sveitarfélaga og mismunandi hversu mikið félagsmálanefndir í raun komi að ákvarðanatöku í einstaka málum. Í stærri sveitarfélögum sé þessi innri endurskoðun eða endurupptaka mála mjög virk, til dæmis í Reykjavík þar sem starfandi sé sérstök áfrýjunarnefnd innan velferðarsviðs og hafi það fyrirkomulag reynst vel. Í öðrum sveitarfélögum hafi verið farin sú leið að líta á afgreiðslu starfsmanna sem fullnaðarafgreiðslu mála þar sem félagsmálanefnd setji reglur og marki stefnu en komi minna að einstaklingsmálum. Það þætti því rétt að fela sveitarstjórnum að taka afstöðu til þess hvernig þessu yrði háttað og gerð var sú krafa að það lægi skýrt fyrir hvort afgreiðslu starfsmanna mætti kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála eða hvort fyrst þyrfti að skjóta henni til félagsmálanefndar. Slík innri endurskoðun þurfi að vera skjótvirk og megi ekki leiða til óþarfa tafa á málinu. Þá kemur fram í almennum athugasemdum um meginefni frumvarpsins að lagðar séu til breytingar á skipulagi félagsþjónustu innan sveitarfélaga til samræmis við endurskoðuð sveitarstjórnarlög frá árinu 2011. Breytingarnar lúti líka að því að skýra feril ágreiningsmála og kæra innan stjórnkerfisins.

Í 52. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar er fjallað um framsal bæjarstjórnar til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála. Þar segir í A. lið að sviðsstjóri velferðarsviðs, eða starfsmenn velferðarsviðs í hans umboði, afgreiði án staðfestingar velferðarráðs meðal annars umsóknir um fjárhagsaðstoð. Þar segir einnig að sviðsstjóri eða starfsmenn í hans umboði geti ávallt óskað eftir því að velferðarráð taki ákvörðun í máli.

Í 11. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð kemur fram að sé umsókn um fjárhagsaðstoð synjað fái umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar séu rökstuddar ásamt tilvitnunum í viðeigandi greinar fjárhagsaðstoðarreglna. Umsækjanda skuli leiðbeint um málskotsheimildir um leið og honum er tilkynnt um slíka ákvörðun.

Líkt og að framan greinir var kæranda í ákvörðun frá 10. janúar 2020 leiðbeint um málskotsrétt sinn til velferðarráðs Kópavogsbæjar og um tímalengd frestsins. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ áfrýjaði kærandi ekki ákvörðuninni til velferðarráðs. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að sá þáttur málsins er snýr að þeirri ákvörðun sé ekki tækur til efnismeðferðar.

Næst koma til skoðunar ákvarðanir frá 28. október 2020 og 10. febrúar 2021. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kærandi lagði fram kærur hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 16. maí 2021. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn vegna þessara tveggja ákvarðana þegar kærur bárust nefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Fyrir liggur að kæranda var í bréfi frá 28. október 2020 hvorki leiðbeint um málskotsrétt til velferðarráðs Kópavogsbæjar né úrskurðarnefndar velferðarmála svo sem bar að gera samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Að því virtu þykir afsakanlegt að kæra vegna ákvörðunar frá 28. október 2020 hafi ekki borist fyrr en liðnum kærufresti og verður sá þáttur málsins því tekinn til efnismeðferðar með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hefur upplýst að ákvörðun velferðarsviðs frá 10. febrúar 2021 hafi ekki verið kynnt honum fyrr en 16. febrúar 2021 og fær það stoð í svörum Kópavogsbæjar að það hafi ekki verið fyrr. Kæra vegna þeirrar ákvörðunar barst því innan kærufrests.

Kærandi fékk greidda skerta fjárhagsaðstoð í október 2020, annars vegar með vísan til þess að hann hafi ekki sýnt fram á virka atvinnuleit og hins vegar vegna fjármuna sem hann átti á bankareikningi. Fjárhagsaðstoð fyrir desember 2020 var einnig skert með vísan til þess að hann hafi ekki framvísað gildum staðfestingum á virkri atvinnuleit fyrir þann mánuð.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 6. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er meðal annars rakið hvaða gögn og upplýsingar umsækjandi skuli leggja fram með umsókn. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. skal umsækjandi sem er atvinnulaus framvísa staðfestingu á nýskráningu hjá Vinnumálastofnun sem staðfestir atvinnuleysi. Jafnframt skal umsækjandi framvísa staðfestingum á umsóknum um störf. Umsækjandi skal að lágmarki sækja um eitt starf í viku. Ef um veikindi er að ræða skal umsækjandi framvísa læknisvottorði.

Í 15. gr. reglnanna er kveðið á um upphæðir fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 3. mgr. að frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragist skattskyldar tekjur, sbr. 17. gr., og peningaeignir, sbr. 18. gr. Í 1. mgr. 18. gr. kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili, peningaeignir eða aðrar eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi býr í og eina fjölskyldubifreið eða bifhjól, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu undir viðmiðunarmörkum. Þá eru í 16. gr. reglnanna raktar aðstæður sem valda skerðingu fjárhagsaðstoðar. Þar segir meðal annars í 1. mgr. að hafi einstaklingur ekki sinnt virkri atvinnuleit með sannanlegum hætti skuli fjárhagsaðstoð skerðast um helming þann sama mánuð og mánuðinn þar á eftir.

Reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að aðrar eignir en íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi 199.357 kr. á bankareikningi þann 1. október 2020 og kom sú fjárhæð réttilega til frádráttar frá fjárhagsaðstoð fyrir þann mánuð. Ljóst er að kærandi lagði ekki fram staðfestingu á virkri atvinnuleit fyrir október 2020. Í gögnum málsins liggur fyrir eyðublaðið, „Staðfesting á virkri atvinnuleit vegna umsóknar um fjárhagsaðstoð“, dags. 22. desember 2020. Þar kemur fram hvaða störf kærandi sótti um í þeim mánuði en Kópavogsbær mat það ekki gilt þar sem ekki lá fyrir staðfesting fyrirtækis/viðmælanda. Eftir að kærandi gerði athugasemd við þá framkvæmd var honum boðið að senda skjáskot af umsóknum sem hann gerði ekki.

Líkt og að framan greinir er það hlutverk sveitarfélaga að tryggja að íbúar þess geti séð fyrir sér og sínum, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 40/1991. Nánari útfærsla á þeirri skyldu er í höndum hvers sveitarfélags, með setningu reglna þar um. Í reglum Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð kemur skýrt fram að einstaklingur sem fái fjárhagsaðstoð skuli framvísa staðfestingum á umsóknum um störf, ella komi til skerðingar fjárhagsaðstoðar. Úrskurðarnefndin telur að sú útfærsla sveitarfélagsins eigi sér stoð í lögum nr. 40/1991. Þar sem kærandi hefur ekki sýnt fram á með sannanlegum hætti að hann hafi verið í virkri atvinnuleit í október og desember 2020 eru ákvarðanir Kópavogsbæjar um að greiða honum skerta fjárhagsaðstoð þá mánuði staðfestar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A vegna ákvörðunar Kópavogsbæjar, dags. 10. janúar 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ákvarðanir Kópavogsbæjar, dags. 28. október 2020 og 10. janúar 2021, um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð fyrir þá mánuði, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum